laugardagur, september 29, 2007

Laugardagur að kveldi kominn og fátt lítið að gerast, Celloæfing búin í dag, nú þurfum við Markús að fara yfir æfingarnar á hverjum degi, æfingin skapar víst meistarann og því ekki seinna að vænta en þrotlausar æfing. Ég þarf að mæta og læra með drengnum, þar sem hann getur stundum verið þver, veit ekki hvaðan hann hefur það, held að hann hafi það ekki frá mér!!!! Ég þarf ekki að vera svona með Stulla, en það er gaman að kynnast nýju hljóðfæri og gott fyrir okkur að glíma við það.

Nú er ég að reyna að skipuleggja dekurdag fyrir mig og Gurrý, ætla að reyna að fá nuddtíma fyrir okkur næsta laugardag svo fáum við okkur eitthvað gott að borða.

En fyrst þarf ég að reyna að finna tíma til að setja niður haustlaukana sem ég keypti til að setja niður hjá Sindra og Gulla bró, ég er að þykjast vera með græna fingur, þess vegna er fínt að setja niður haustlauka, lítið að hafa fyrir því.
Ég er búin að finna drauma húsið mitt, það versta við það er að enginn í fjölskyldunni vill flytja, svo væri nú líka betra að vera með vinnu þar sem þetta hús er. Dalur er til sölu, það er hús í Borgó sem amma mín er uppalin í, það var víst langalangaafi minn sem byggði þetta hús árið 1906, þá var langafi minn 14 ára og langamma bara 5 ára, sem sagt hús með mikla fjölskyldusögu. Ég skil bara ekki í strákunum mínum að vilja ekki flytja. Þetta er er svo flottur staður. Hvað finnst ykkur???

föstudagur, september 28, 2007

Saga dagsins

Ég vinn með yndislegum manni, þetta er maður sem gekk undir því nafni að vera kallaður "Fallöxin", ég bara skil ekki afhverju, þar sem hann er alveg yndislegur og vinnur vinnuna sína mjög vel. Fyrir utan það, þá kallaði hann á mig í morgun og sagði mér hvað ég væri heppin, ég sagði nú svo vera en afhverju spurði ég, nú sagði hann ég geymdi fyrir þig fullan poka af laufblöðum, ha fullan poka af laufblöðum sagði ég, já sagði hann ég frétti að þú færir að safna þeim fyrir drenginn þinn. Við þetta sprakk ég úr hlátri og hló mig vitlausa þar til tárinn runnu niður. þannig er nefnilega mál með vexti að Markús Ingi átti að safna 10 laufblöðum af mismunandi gerð og lit, þetta var svona haustverkefni, og mamman fann nokkur flott laufblöð á mánudaginn og starfsfólkið spurði mig hvað ég væri að gera með laufin, nema það að þessi yndæli maður tók því þannig að ég væri að safna heilum helling fyrir skólann og ætlaði bara að hjálpa mér í þeim málum. Segið svo að það vinni ekki gott fólk hjá Bílastæðasjóði. "En fullan poka"!!!!

mánudagur, september 17, 2007

Strætóferð

Jú jú ég tók strætó í kvöld, sem er reyndar ekki merkilegt í sjálfu sér, nema þá kannski að mér finnst að bílstjórinn ætti að taka prófið aftur, ég held að hann hafi brotið flestar umferðareglur á þessari leið sem hann keyrði.
Þar sem ég þurfti að fara á fund í dag eftir vinnu, upp í Árbæ og Haukur með bílinn þá er bara ekkert annað en að taka strætó, sem er bara gott og blessað, sitja í rólegheitum í 40 mínútur, eða þannig hugsaði ég það. Eftir fundinn fékk ég vin minn til að keyra mig í mjóddina þar sem ég gæti tekið strætó beina leið heim (upp að dyrum) með leið 11. Er ég var kominn inn í vagninn, þá gaf bara bílstjórinn í botn, ekkert verið að hægja á sér í beygjum og hann var sko langt yfir hámarkshraða, maður mátti hafa sig allan við að halda sér í sætinu, ekki nóg með það þá keyrði hann í veg fyrir 1 bíl og var nærri því búinn að keyra niður 2 stelpur, og kallinn var bara á flautunni. Eftir að hafa setið í vagninum í 30 mín, þá koma inn 2 gamlar konur sem varla stóðu í fæturnar og ekki bætti það úr skák að þegar þær voru búnar að borga þá lagði kallinn af stað og þær áttu í erfileikum með að setjast í sætin, kerlingar greyin voru dauðskelkaðar á aksturslaginu þar sem hann brunaði yfir hraðahindranirnar og ég get líka alveg sagt það að ég var mjög fegin þegar ég steig út úr vagninum. Strætóferðin sem ég sá í hyllingum sem rólegheitaferð var frekar ferðu upp á líf og dauða. Held að það ætti að standa á stýrinu í strætó "Hraðinn drepur".

mánudagur, september 10, 2007

Búin að skella inn myndum

Hef lítið að segja þessa dagana, bara nóg að gera eins og vant er.
Nema að ég er búin að skella inn fullt af myndum á nýja myndavefinn, hérna hægra megin, endilega kíkið á þær.
Kveðja frá mér í letikasti.